Stuðningskerfi

Tilgangur verkefnisins er að veita bandarískum styrkþegum ákveðinn stuðning og hjálpa þeim að komast sem best inn í íslenskt samfélag og kynnast fólki. Um leið fá íslenskir þátttakendur tækifæri til að kynnast nýjum vini frá Bandaríkjunum.

Einungis einn fastur punktur er í verkefninu, en ætlast er til að íslenskur félagi bjóði sínum styrkþega í kaffi eða mat fljótlega eftir að hann kemur til landsins. Í framhaldi af því má þróa sambandið í samræmi við vilja einstaklinganna sem þátt taka. Ein leið til að halda uppi reglulegum og ánægjuríkum samskiptum er að byggja á sameiginlegum áhugamálum. Einnig hafa skoðunarferðir í íslenskri náttúru gefist vel, á meðan aðrir láta sér nægja spjall yfir kaffibolla um það sem þeim er efst í huga hverju sinni eða tölvupóstsamskipti þar sem góð ráð eru veitt.

Hér á eftir fara nokkur dæmi um það sem getur virkað vel, en aftur skal tekið fram að verkefnið er mjög einstaklingsbundið.

  • Bjóða styrkþega að koma með í innkaupaferð – styrkþegar eru yfirleitt ekki á bíl og eru þakklátir að fá ferð í matarbúð öðru hverju og geta þegið aðstoð við að þekkja íslenskar matvörur.
  • Bjóða styrkþega að taka þátt í íþróttahópi sem félaginn er meðlimur í.
  • Bjóða styrkþega í saumaklúbb, matarklúbb eða aðra hópa sem snúast um áhugamál.
  • Bjóða styrkþega að taka þátt í hátíð þar sem margir Íslendingar koma saman, t.d. jólaboð, nýárspartí eða í páskamat.
  • Bjóða styrkþega með í Eurovision-partí, í skötu á Þorláksmessu, í mat á sprengidag eða á þorrablót.
  • Bjóða styrkþega með í sumarbústaðaferð eða í sunnudagsbíltúr út fyrir bæinn. Eða fara saman í gönguferðir í Reykjavík og nágrenni.
  • Kynna styrkþega fyrir fleiri Íslendingum sem hann gæti haft gagn og gaman af því að hitta eða sem tengjast námi/rannsókn viðkomandi.
  • Hittast í mat eða kaffi til að spjalla, segja styrkþega hvað er efst á baugi á Íslandi hverju sinni og benda styrkþega á áhugaverða uppákomur sem gætu farið fram hjá útlendingum.

Það er hlutverk íslenska félagans að hafa samband reglulega. Mikilvægt er að leyfa sambandinu að þróast eðlilega. Íslenski félaginn á ekki reyna að stýra bandaríska styrkþeganum eða hafa sterkar skoðanir á því hvað viðkomandi „eigi“ að gera við tíma sinn almennt. Eins á styrkþeginn ekki heimtingu á því að félaginn sinni honum stanslaust. Þetta verkefni er hugsað til að auðga samband styrkþegans við land og þjóð, öllum til ánægju. Sumir styrkþegar hafa takmarkað samband við félaga sinn, en í öðrum tilvikum myndast djúp vinátta sem heldur áfram að styrktímabilinu loknu. Sumir hafa jafnvel heimsótt styrkþegann „sinn“ til Bandaríkjanna að verkefninu loknu.

Þátttaka í þessu verkefni er frábær leið til að gefa til baka og gera eitthvað verulega skemmtilegt í leiðinni.

Vertu með!

Hefur þú áhuga á að taka þátt í verkefninu?

Skrá mig
FULBRIGHT COMMISSION ICELAND
Opening hours:
  • Mon-Fri: 10-16
  • EducationUSA Advising Center hours:
  • Tue 10:00–12 and 13–15:30
  • This field is for validation purposes and should be left unchanged.