Samstarfsstyrkir

Umsækjandi sækir um Fulbright-styrk. Undir liðnum „Additional Grants“ undir „Grant & Travel Plans“ er beðið um upplýsingar um aðra styrki sem sótt er um („Indicate if you are planning to apply for other sources of funding…“). Þar skal setja inn upplýsingar um þá samstarfsstyrki sem sótt er um. Jafnframt skal fylgja þeim leiðbeiningum sem gilda varðandi umsókn í viðkomandi skóla.

Stofnaður af Charles E. Cobb, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna á íslandi

Cobb Family Fellowship

Styrkurinn var stofnaður af Charles E. Cobb, sem var sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi á árunum 1989-1992, og er ætlaður til framhaldsnáms við University of Miami í Flórída. Fulbright-stofnunin tilnefnir einn námsmann á hverju hausti til að hljóta styrkinn til að stunda masters- eða doktorsnám við skólann.

Upplýsingabæklingur

Styrkupphæðin undanfarin ár hefur verið 15.000 USD. Til viðbótar fær Cobb-styrkþegi yfirleitt afslátt af skólagjöldum. Afslátturinn hefur verið mismikill á milli ára og deilda, oftast á bilinu 30-70%.

Tekið er við umsóknum í þeim námsgreinum sem skólinn býður upp á, en á heimasíðu skólans má skoða hvaða námsgreinar eru í boði. Umsækjendur um styrkinn þurfa að sækja um skólavist í viðeigandi deild. Athugið að skila verður umsókn til háskólans eigi síðar en 15. desember ef sótt er um Cobb-styrkinn, þó að umsóknarfrestur viðkomandi deildar kunni að vera síðar.

Frekari upplýsingar um framhaldsnám við UM má finna á vefsíðu skólans: https://grad.miami.edu/

Styrkur til LL.M. náms

Frank Boas-styrkur í lögfræði

Frank Boas-styrkurinn er námsstyrkur til LL.M.-náms í alþjóðalögum við Harvard-háskóla. Styrkurinn er samkeppnisstyrkur. Fulbright-stofnanir í níu löndum, þar á meðal á Íslandi, tilnefna fulltrúa, og lagadeild Harvard ákveður síðan hverjir fá styrk af þeim sem tilnefndir eru.

Upplýsingar um styrk

Upphæð styrksins er mismunandi þar sem honum er oftast skipt á milli nokkurra umsækjenda. Umsækjendur skulu hafa lokið laganámi sem samsvarar embættisprófi (B.A.-próf er ekki fullnægjandi). Starfsreynsla er æskileg en ekki skilyrði.

Umsækjandi þarf að sækja um skólavist í Harvard skv. leiðbeiningum lagadeildar Harvard-háskóla. Athugið að nauðsynlegt er fyrir Boas umsækjendur að taka fram í umsókn til Harvard að sótt sé um „financial aid“ og fylla út öll nauðsynleg gögn þar að lútandi. Fulbright-stofnunin ákveður hverjir eru tilnefndir af Íslands hálfu til Boas-styrksins, en Harvard tekur tilnefninguna einungis til greina ef umsækjandi hefur fyllt út „financial aid“-upplýsingar í umsókn um skólavist. Frekari upplýsingar um LL.M. nám við lagadeild Harvard má finna á vefsíðu skólans: https://hls.harvard.edu/

Styrkur til LL.M. náms

University of Maine School of Law

Lagadeild Maine-háskóla (Maine Law) býður einum íslenskum námsmanni á ári upp á styrk til LL.M.-náms. Styrkþeginn fær 10.000 USD afslátt af skólagjöldum.

Upplýsingar um námið

Umsækjendur skulu vera íslenskir ríkisborgarar og hafa lokið meistaragráðu eða sambærilegu námi í lögfræði utan Bandaríkjanna. Boðið er upp á fjölbreytt laganám við skólann og gefst nemendum m.a. tækifæri til að fræðast um bandaríska lagakerfið og nema alþjóðalög. Sækja skal um styrkinn með því að fylla út umsókn um Fulbright-styrk og fylgja þar öllum leiðbeiningum. Ekki er nauðsynlegt að sækja sérstaklega um skólavist við lagadeild háskólans, heldur nægir Fulbright-umsóknin.

Styrkur til framhaldsnáms á sviði sjávarvísinda (marine sciences)

University of North Carolina Wilmington

University of North Carolina, Wilmington veitir einum íslenskum námsmanni á ári styrk til framhaldsnáms á sviði sjávarvísinda (marine biology, coastal and ocean policy og marine sciences). Styrkurinn felur í sér fulla niðurfellingu skólagjalda, auk þess sem styrkþeginn getur hlotið stöðu aðstoðarmanns við skólann og þannig unnið sér inn laun til að standa straum af uppihaldi. Endanleg styrkupphæð ræðst af námsárangri styrkþegans.

Umsækjendur skulu skila inn umsókn um skólavist til UNCW eigi síðar en 15. desember (þó að almennur umsóknarfrestur viðkomandi deildar kunni að vera síðar).  Renni umsóknarfrestur viðkomandi deildar út fyrir 15. desember, skal miða við hann. Uppfylla þarf inntökuskilyrði sem skólinn setur. Frekari upplýsingar um framhaldsnám við UNCW: https://uncw.edu/gradschool/