Lög félagsins

1. gr. Heiti félagsins og varnarþing.
Félagið heitir Félag Fulbright styrkþega á Íslandi. Gagnvart erlendum samstarfsaðilum heitir félagið The Fulbright Alumni Association in Iceland.
Heimili og varnarþing félagsins er í Reykjavík. Félagið hefur aðsetur og starfsaðstöðu á skrifstofu Fulbright stofnunarinnar.

2. gr. Tilgangur félagsins.
Tilgangur félagsins endurspeglar tilgang Fulbright verkefnisins. Í því felst meðal annars að:
að leiða saman núverandi og fyrrverandi Fulbright styrkþega með hugmyndafræði J. William Fulbright, stofnanda samtakanna, að leiðarljósi, þ.e. að stuðla að betra mannlífi og friði með menntun, aukinni þekkingu og samfélagsvitund;
að efla starfsemi Fulbright stofnunarinnar;
að styrkja og efla samskipti bandarískra og íslenskra Fulbright styrkþega;
að efla menningar- og vináttutengsl Íslands og Bandaríkjanna.

3. gr. Félagsaðild.
Félagar eru allir þeir er hlotið hafa styrk frá Fulbright stofnuninni.
Jafnframt getur stjórnin veitt fyrrverandi starfsmönnum og stjórnarmönnum Fulbright stofnunarinnar á Íslandi heiðursaðild að félaginu. Skal slík ákvörðun tekin á aðalfundi.

4. gr. Aðalfundir og félagsfundir.
4.1 Aðalfundur hefur æðsta vald um málefni félagsins.
4.2 Aðalfundur skal haldinn í janúar eða febrúar ár hvert. Dagsetning aðalfundar skal tilkynnt félagsmönnum með tölvupósti og á vefsíðu félagsins með minnst 4 vikna fyrirvara.
4.3 Félagsmenn geta óskað þess við stjórn að mál verði sett á dagskrá aðalfundar. Slíkar tillögur skulu berast stjórn eigi síðar en 2 vikum fyrir dagsetningu aðalfundar og skulu teknar upp í dagskrá fundarins.
4.4 Aðalfundur skal formlega boðaður með minnst 1 viku fyrirvara. Með fundarboði skal fylgja dagskrá aðalfundar auk lagabreytingatillagna og annarra fylgigagna ef við á.
4.5 Eftirfarandi mál ber að taka fyrir á aðalfundi, eftir því sem við getur átt:
–   Kosningu fundarstjóra og ritara aðalfundar
–   Skýrslu stjórnar fyrir síðastliðið ár
–   Afgreiðslu ársreikninga
–   Lagabreytingar
–   Kosningu formanns og stjórnar skv. 5. gr.
–   Kosningu tveggja skoðunarmanna reikninga félagsins
–   Önnur mál.
4.6 Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða, sbr. þó 7. og 8. gr. Ef atkvæði falla jöfn ræður hlutkesti úrslitum.
4.7 Haldin skal fundargerð um það sem gerist á aðalfundi og annast ritari fundarins færslu hennar. Fundargerð skal staðfest og undirrituð af ritara og fundarstjóra aðalfundar.
4.8 Aðrir félagsfundir skulu haldnir ef nauðsyn krefur að mati stjórnar eða 10% félagsmanna krefjast þess. Stjórn skal þá boða til félagsfundar með minnst 4 vikna fyrirvara. Um framkvæmd félagsfunda, þ.m.t. boðun, atkvæðagreiðslu og fundargerðir, gilda sömu reglur og um aðalfundi eftir því sem við á.

5. gr. Stjórn félagsins.
5.1 Stjórn stýrir öllum málefnum félagsins og gætir hagsmuna þess á grundvelli starfsreglna og ákvarðana aðalfunda og félagsfunda. Stjórn gegnir fyrirsvari fyrir félagið og ritar firma þess. Stjórn getur veitt tveimur stjórnarmönnum umboð til að koma fram fyrir hönd félagsins og rita firma þess í sameiningu. Stjórn getur hvenær sem er afturkallað slíkt umboð.
5.2 Aðalfundur kýs formann og 4 til 6 stjórnarmenn. Eftir kjör skiptir stjórnin með sér verkum sem hér segir: varaformaður, ritari, gjaldkeri og einn til þrír meðstjórnendur.
5.3 Stjórnarmenn eru kjörnir til eins árs í senn. Stjórnarmaður getur ekki gegnt stjórnarmennsku lengur en fimm kjörtímabil samfleytt.
5.4 Stjórnarfundir eru haldnir eftir þörfum og eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Stjórnarfundir skulu boðaðir með minnst viku fyrirvara. Ef stjórnarmaður óskar þess að stjórnarfundur sé haldinn skal hann boðaður innan hálfs mánaðar.
5.5 Haldnar skulu fundargerðir um það sem gerist á stjórnarfundum. Fundargerð stjórnarfundar skal staðfest af stjórnarmönnum eins skjótt og verða má og ekki síðar en á
næsta stjórnarfundi á eftir. Félagsmenn eiga rétt til að kynna sér fundargerðir stjórnarfunda óski þeir þess.
5.6 Formaður annast boðun stjórnarfunda og stýrir þeim. Varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans. Ritari heldur fundargerðir stjórnarfunda og aðstoðar formann við
fundarstjórn. Gjaldkeri annast fjárreiður og reikninga félagsins í samráði við stjórn. Að öðru leyti getur stjórn falið stjórnarmönnum afmörkuð verkefni eftir föngum.
5.7 Stjórnarfundur er ákvörðunarbær þegar meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Á stjórnarfundum ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Ef atkvæði falla jöfn ræður atkvæði
formanns úrslitum.
5.8 Framkvæmdastjóri Fulbright stofnunarinnar á Íslandi á sæti á stjórnarfundum og á þar umræðu- og tillögurétt nema stjórn ákveði annað. Stjórn getur heimilað öðrum að sitja fundi ef þurfa þykir.

6. gr. Fjárhagsár. Félagsgjald.
Fjárhagsár félagsins er almanaksárið.
Aðalfundur getur ákveðið að greiða skuli árlegt félagsgjald til félagsins. Aðalfundur ákveður fjárhæð gjaldsins.

7. gr. Slit félagsins.
Ef ¾ hlutar félagsmanna óska þess á aðalfundi má slíta félaginu svo fremi að engar skuldbindingar hamli því. Ef einhverjar eignir eru renna þær til Fulbright stofnunarinnar á Íslandi.

8. gr. Breytingar á lögum félagsins.
Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi svo fremi að breytingartillagan fái 2/3 hluta greiddra atkvæða.
Samþykkt á 1. aðalfundi félagsins 18. september 2008, með breytingum 30. janúar 2012, 8. janúar 2015, 28. apríl 2016, 17. febrúar 2020 og 21. febrúar 2022.

Persónuvernd

Við notkun á þessari vefsíðu verða til upplýsingar um heimsóknina. Fulbright notar þessar upplýsingar til að betrumbæta vefsíðuna og upplifun notenda hennar. Við leggjum höfuðáherslu á varðveislu þessara gagna og afhendum þau ekki þriðja aðila nema um lagalega skyldu sé að ræða.

Vafrakökum er safnað í þeim tilgangi að telja heimsóknir sem og greina notendaferðalag (e. Users journey) um vefsíðuna. Þessar upplýsingar eru greindar með því markmiði að bæta upplifun notenda á vefsíðunni og auðvelda aðgengi notenda að upplýsingum.

Fulbright notar Google analytics til að safna gögnum, þar koma fram upplýsingar um hverja heimsókn, hversu lengi hún varði, hvert notandi fór innan vefsíðunnar og hvar hann fór af léninu.

Cookie Policy

This site uses cookies. Cookies are used to enhance user experience on this website. By gathering data such as the user journey, bounce rate, individual site clicks, and where the user comes from, we can better adjust our site to give the user the best possible journey through it. User preferences might be kept, and tracking data shared with Google Analytics. We strive to keep this information safe, and no attempt will be made to connect this information to individuals.

Users can disable cookies in their browser, to do this we recommend looking up cookies in your browser help section.