Stuðningur við Fulbright er fjárfesting í framtíðinni – Vertu bakhjarl!

Mikilvægt er að hlúa að grasrótarsamstarfi á milli Íslands og Bandaríkjanna á sviði mennta, vísinda og nýsköpunar. Fulbright hefur síðan 1957 hjálpað Íslendingum að láta drauminn um nám eða rannsóknarvinnu í Bandaríkjunum rætast, en yfir 1600 styrkir hafa verið veittir frá upphafi til bæði Íslendinga og Bandaríkjamanna.

Til þess að hægt sé að halda áfram úti öflugu Fulbright fræðasamstarfi býður Fulbright stofnunin á Íslandi einstaklingum og fyrirtækjum til samstarfs.

Þitt framlag tryggir að Íslendingar geti sótt bestu háskóla heims og snúið aftur með mikilvæga þekkingu og færni sem nýtist íslensku samfélagi, byggt upp tengslanet til framtíðar og aukið gagnkvæman skilning á milli þessara vinaþjóða. Með stuðningi við Fulbright styrkþega fjárfestum við í framtíðinni.

Hvað segja styrkþegar?

Skattaafsláttur vegna framlags til Fulbright

Bakhjarlar fá skattaafslátt fyrir framlög sem þeir gefa sem nema minnst 10 þús. krónur og allt að 350 þús. krónur á hverju almanaksári. Við sjáum um að koma öllum upplýsingum til Skattsins sem færir afsláttinn beint inn á skattskýrsluna. Nánari upplýsingar á heimasíðu Skattsins.

Dæmi: Einstaklingur sem greiðir 2500 króna styrk á mánuði fær skattafslátt að fjárhæð 11.400 krónur og greiðir þannig í raun einungis 18.600 fyrir 30 þúsund króna styrk.

Athugið að endurgreiðslan getur verið hærri eða lægri. Dæmið er byggt á meðaltekjum en tekjuskattshlutfall er breytilegt, sem hefur áhrif á upphæð endurgreiðslu. Einstaklingar geta fengið skattaafslátt ef styrkupphæð er á bilinu frá 10-350 þúsund króna.

 

Allt söfnunarfé frá einstaklingum og fyrirtækjum er eyrnamerkt íslenskum náms- og fræðimönnum og fer í styrkkostnað eingöngu (grants and grant supporting activities), en ekki í rekstrarkostnað.

Allir bakhjarlar eru nefndir í ársskýrslu stofnunarinnar, en hægt er að óska nafnleyndar.

Fjárfesting í framtíðinni

Einstaklingar geta valið um þrjár leiðir til að styðja starf Fulbright á Íslandi: eingreiðsla, mánaðarlegar greiðslur eða full fjármögnun á einum eða fleiri styrkjum.

Ath. að framlag á ársgrundvelli þarf að vera minnst 10.000 kr. til að njóta skattaafsláttar. Skattafrádráttur gildir upp að 350.000 kr.

Styrkja Fulbright