Leiðbeiningar fyrir umsækjendur

Hér fyrir neðan eru mikilvægar upplýsingar sem umsækjendur skulu kynna sér vel. Ef spurningar vakna má hafa samband við Fulbright-stofnunina.

Umsókn skal skilað í gegnum rafrænt umsýslukerfi sem nefnist Slate. Ítarlegar leiðbeiningar um umsóknarferlið fyrir Fulbright-námsstyrk eru aðgengilegar í Slate-umsóknarkerfinu. Mikilvægt er að umsækjendur lesi þessar upplýsingar mjög vandlega og fylgi þeim við gerð umsóknar.

Rafrænt umsóknarkerfi

Þegar notandi skráir sig í fyrsta sinn þarf að gefa upp netfang, sem kerfið notar til að senda nauðsynlegar upplýsingar til umsækjanda. Mikilvægt er að lesa vel leiðbeiningar um það hvernig fylla á út umsóknina og hvernig á að senda meðmælendum tengla svo þeir geti skilað meðmælum á viðeigandi hátt.

Umsóknarfrestur fyrir skólaárið 2025-2026 er 14. október 2024.

 

Leiðbeiningar fyrir útfyllingu umsóknar má finna hér.

Hefja umsókn

Almenn skilyrði sem umsækjendur verða að uppfylla

  • Umsækjandi verður að vera íslenskur ríkisborgari.
  • Umsækjandi má ekki vera handhafi græna kortsins eða með bandarískt ríkisfang.
  • Umsækjandi skal hafa lokið grunnháskólanámi, B.A. eða B.S. (eða mun ljúka því um vorið), og hafa áætlanir um að hefja framhaldsnám, þ.e. masters- eða doktorsnám, í Bandaríkjunum að hausti. Skólavist þarf ekki að liggja fyrir.
  • Allar námsgreinar eru styrkhæfar nema læknisfræði og annað nám sem felur í sér eftirlitslaus samskipti við sjúklinga.
  • Ekki er hægt að sækja um styrk til masters- eða doktorsnáms í Bandaríkjunum eftir að nám er hafið.

Ábyrgð umsækjenda

Umsækjandi ber ábyrgð á að öll gögn berist Fulbright-stofnuninni á réttum tíma. Einungis þær umsóknir sem berast með öllum fylgigögnum áður en umsóknarfrestur rennur út verða teknar til greina. Umsækjandi þarf að fylgjast með því að meðmælum sé skilað á réttum tíma, en meðmælandi skilar þeim beint inn í rafræna umsókn til Fulbright-stofnunarinnar. Meðmælendur eiga ekki að senda meðmæli til umsækjanda.

Til viðbótar við rafræna umsókn skal skila til Fulbright-stofnunarinnar einu útprentuðu eintaki af umsókn og öllum fylgigögnum, að undanskildum meðmælum.

Heimilt er að skila útprentaðri umsókn ásamt fylgigögnum næsta virka dag eftir að umsóknarfrestur rennur út og skal hún þá berast stofnuninni fyrir kl. 16. Jafnframt er leyfilegt að póstleggja umsóknina næsta virka dag eftir að umsóknarfrestur rennur út og skal þá tilkynna stofnuninni samdægurs að umsókn hafi verið póstlögð.

Læknaskýrsla

Aðeins þeir sem hljóta styrk þurfa að skila læknaskýrslu, “Medical History and Examination Form“. Vinsamlegast skilið henni ekki með umsókninni. Á þessu stigi þarf heldur ekki að skila síðum úr vegabréfi eða upplýsingum um fjölskyldumeðlimi (dependents).

ATH:

Ef sótt er um styrk(i) á vegum samstarfsaðila Fulbright-stofnunarinnar skal fylla út Fulbright-umsókn og fylgja sömu leiðbeiningum. Undir liðnum „Additional Grants“ undir „Grant & Travel Plans“ er beðið um upplýsingar um aðra styrki sem sótt er um („Indicate if you are planning to apply for other sources of funding…“). Þar skal taka fram alla viðbótarstyrki sótt er um, m.a. samstarfsstyrki á vegum Fulbright stofnunarinnar, t.d. Cobb Family Fellowship eða styrki á vegum háskóla sem stofnunin hefur umsjón með.

Tveggja ára reglan

Íslenskir námsmenn sem þiggja Fulbright-styrk fara til Bandaríkjanna með J-1 vegabréfsáritun og eru bundnir af svokallaðri „tveggja ára reglu“. Hún kveður á um að viðkomandi snúi aftur heim að námi loknu og geti hvorki sótt um dvalar- né atvinnuleyfi í Bandaríkjunum í a.m.k. tvö ár að loknu námi.

Hægt er að sækja um undanþágu frá þessari reglu. Það er tímafrekt ferli og ólíklegt að undanþágan verði veitt. Allar nánari upplýsingar um það umsóknarferli er að finna á heimasíðu bandaríska utanríkisráðuneytisins.

Val á styrkþegum

Fulbright-stofnunin á Íslandi veitir árlega að jafnaði fimm til sex íslenskum námsmönnum styrk til Bandaríkjafarar. Stjórn Fulbright-stofnunarinnar á Íslandi tekur ákvarðanir um styrkveitingar til Íslendinga en hver og einn styrkþegi þarf síðan að vera samþykktur af yfirstjórn Fulbright í Bandaríkjunum. Í stjórn Fulbright-stofnunarinnar sitja fjórir Íslendingar og fjórir Bandaríkjamenn auk tveggja varamanna. Við ákvarðanatöku um veitingu styrkja tekur stjórnin mið af mörgum faglegum þáttum. Farið er vandlega yfir allar umsóknir. Á grundvelli umsóknar er hópi umsækjenda boðið í viðtöl. Úr þeim hópi eru styrkþegar valdir, sem og varamenn.

Við val á styrkþegum er m.a. horft til eftirfarandi þátta

  • Náms- og starfsferill
  • Virkni í félagsstörfum og leiðtogahæfileikar
  • Námsmarkmið og framtíðaráform
  • Gæði umsóknar í heild og innihald ritgerðar (personal statement)
  • Meðmæli
  • Aðrir þættir sem skipta máli í tengslum við stefnumótun Fulbright hverju sinni

Ætlast er til þess að styrkþegar séu „góðir fulltrúar lands og þjóðar“ sem muni kynna eigin menningu á jákvæðan hátt í Bandaríkjunum meðan á námsdvöl stendur. Jafnframt er þess vænst að þeir muni flytja heim með sérþekkingu og skilning á menningu Bandaríkjanna að dvöl lokinni og miðla af reynslu sinni til samlanda sinna er ekki fá sömu tækifæri. Hugsjónin gengur út að aukin þekking og skilningur verði til þess að efla og bæta samstarf þjóða á öllum sviðum og stuðli þannig að friði og hagsæld í heiminum. Þegar heim er komið verða fyrrverandi styrkþegar hluti af samfélagi Fulbright-styrkþega á Íslandi og við væntum þess að þeir leggi af mörkum til þess hugsjónarstarfs sem Fulbright stendur fyrir.