Hvernig er sótt um íþróttastyrk?
Nemendur þurfa að koma sér í samband við þjálfara úti í Bandaríkjunum. Mikilvægt er að kynna sér reglur varðandi samskipti þjálfara og íþróttamanns því það er ekki sjálfgefið hvernig þau mega fara fram. Strangar reglur gilda um þessi samskipti og brot á þeim getur varðað sviptingu styrks.
Mikilvægast fyrir nemendurna er að þeir verði sérfræðingar í sínum eigin málum og treysti ekki á þjálfara eða „agent“ í þeim efnum. Efnilegir nemendur sem vel gætu átt möguleika á styrkjum geta misst af frábærum tækifærum ef þeim er ekki sinnt sem skyldi. Sérhæfðar leitarvélar eru aðgengilegar til að finna skóla eftir greinum, íþróttum, deildum eða hverju sem hentar. Skoða má kaflann um leitarvélar hér á síðunni til að finna nokkrar slíkar.
Markmiðið er alltaf að sameina nám og ástundun íþróttar með því að fá styrk fyrir hið síðarnefnda til að greiða niður hið fyrrnefnda. Þannig komast margir í grunnháskólanám til Bandaríkjanna sem ella væri torsótt sökum kostnaðar. Öruggasta leiðin er að reyna að fá mörg tilboð um styrki og skólavist og geta þannig valið úr mörgum tilboðum.
Það getur verið snúið fyrir íþróttafólk að ákvarða sjálft hvar það stendur í íþrótt sinni meðal jafningja, ekki síst í hópíþróttum. Ráðlegt er að leita sér að liði þar sem maður getur lagt mikið af mörkum og liðsfélagarnir eru á svipuðu getustigi og maður sjálfur.
Á vefsíðum eins og berecruited.com er hægt að skoða ferilskrár íþróttafólks og bera þær saman við sína eigin. Gott er að fá ráð og leiðbeiningar hjá íslenskum þjálfurum, sérstaklega þeim sem hafa áður sent keppendur sína til Bandaríkjanna. Mikilvægt er að vera heiðarlegur og reyna að meta sjálfan sig á hlutlausan hátt. Auðvitað skiptir líka máli hvers konar leikmanni bandarískir þjálfarar eru að leita að.
Lykilatriði við að koma sér á framfæri er að senda myndbandsupptöku til þjálfara. Bandarískir þjálfarar líta oft ekki á umsóknir frá íþróttamönnum ef þeir geta ekki séð myndband af viðkomandi. Kynningarmyndbönd þurfa að vera stutt og hnitmiðuð en jafnframt er gott að eiga myndband af heilum leik líka ef ske kynni að þjálfari bæði um það. Einfaldast er að setja myndband eða myndbönd á sína eigin Youtube-rás og senda svo þjálfaranum tengil á myndbandið með tölvupósti. Ekki er ráðlegt að senda myndbönd sem viðhengi með tölvupósti; þau enda iðulega í ruslpósti. Talið er að um 20% myndbanda komist aldrei í hendur þjálfara og þar með missa nemendur af gullnu tækifæri sem mögulegir styrkþegar.