Styrkir til erlendra nemenda

Bandarískir háskólar veita í mörgum tilfellum styrki til erlendra nemenda og þá oftast í formi afslátta eða niðurfellingar á skólagjöldum. Við val á háskóla er afar mikilvægt að kynna sér hvernig erlendir námsmenn eru styrktir en það getur verið mjög mismunandi milli skóla. Samkeppni um beina styrki frá háskólunum sjálfum er oft mjög hörð og skiptir námsárangur þar miklu máli, bæði úr fyrra námi og inntökuprófum.

Íþróttastyrkir

Íþróttastyrkir geta verið raunhæfur kostur fyrir marga sem hyggja á grunnnám í Bandaríkjunum. Nálgast má frekari upplýsingar um þá neðar á síðunni.

Handbók um styrki

RANNÍS og SÍNE halda úti upplýsingasíðunni farabara.is þar sem finna má ýmsar upplýsingar um nám erlendis, þ.m.t. þá styrki sem í boði í hinum ýmsu löndum. Þar má nálgast lista yfir ýmsa styrki á vegum íslenskra og erlendra styrktarsjóða til náms og rannsókna í Bandaríkjunum. Hér er þó ekki um tæmandi lista að ræða enda sumir íslenskir námsstyrkir eingöngu auglýstir í íslenskum fjölmiðlum.

Athugið að undir „Ísland“ eru einnig fjölmargir íslenskir styrktarsjóðir, sem margir nýtast til náms erlendis.

Leitarvélar fyrir styrki og skóla sem styrkja erlenda nemendur

Inn á leitarvél Common App er hægt að velja sérstaklega að leita að skólum sem gefa styrki/fjárhagsaðstoð til erlendra nemenda. Það eru nefnilega ekki allir skólar sem að bjóða upp á styrki/fjárhagsaðstoð til fólks utan Bandaríkjanna og það er eitthvað sem þarf að hafa í huga þegar sótt er um nám.

Á síðu GetUSScolarships.com er hægt að leita að styrkjum til náms í Bandaríkjunum og fá góð ráð til að auka líkur sínar á því að fá úthlutað styrk.

Ert þú íþróttastjarna?

Íþróttastyrkir

Ein leið til að fjármagna grunnnám í Bandaríkjunum er að komast á íþróttastyrk. Umtalsverð fjárhagsaðstoð getur verið í boði, ýmist í formi beinna styrkja eða niðurgreiðslu skólagjalda. Það krefst mikillar vinnu og undirbúnings að finna skóla og þjálfara sem samþykkir erlendan námsmann í lið hjá sér. Flestar upplýsingar um ferlið er þó hægt að finna á netinu og því auðvelt fyrir nemendur sjálfa að koma sér á framfæri.

Kröfurnar eru oft miklar og mikill tími fer í íþróttaiðkun á meðan á námi stendur. Íþróttastyrkþegar verða að standa sig í námi, annars eiga þeir á hættu að fá ekki að keppa fyrir hönd skólans og jafnvel að missa styrkinn. Á móti kemur að þjónusta við íþróttafólk er almennt góð, það fær aðstoð við námið og öll aðstaða í skólunum er oftast til fyrirmyndar.

Möguleikar eru jafnframt til staðar að stunda íþróttir við tveggja ára háskóla. Oft kemur til einhver fjárhagsaðstoð, að vísu umtalsvert minni en í hefðbundnum fjögurra ára háskólum enda skólagjöldin líka töluvert lægri. Hærri íþróttastyrkir eru fyrir hendi þegar kemur að flutningi í fjögurra ára háskóla til að ljúka seinni hluta námsins.

Helstu íþróttasamtökin

Í Bandaríkjunum er skólum skipt í deildir eftir stærð, en ekki endilega getu. Yfirleitt keppir hver skóli í sömu deild í öllum greinum. Stærstu íþróttasamtökin eru NCAA (National College Athletic Association), NAIA (National Association of Intercollegiate Athletics) og NJCAA (National Junior College Athletic Association).

Hvers konar styrkir eru í boði?

Íþróttastyrkir, oft kallaðir „grants-in-aid“ í Bandaríkjunum, ná yfirleitt yfir skólagjöld, fæði og húsnæði og bókakostnað. Styrkirnir geta verið mismunandi háir eftir skólum enda skólagjöld hvers skóla fyrir sig mjög mismunandi.

Í sumum tilfellum eru veittir hlutastyrkir, eða “partial scholarships”  en í öðrum tilfellum fullir styrkir. Skólarnir reyna því oft að dreifa styrkjunum með því að veita hlutastyrki í stað fullra styrkja.

Niðurfelling hluta skólagjalda eða „out-of-state tuition waiver“ er einnig möguleiki hjá ríkis-/fylkisskólum. Slíkar niðurfellingar eru þá oft notaðar til að koma til móts við hlutastyrki. Gott er að spyrjast fyrir um þennan möguleika þegar haft er samband við skóla.

Möguleikar á styrk

Fjöldi styrkja er nokkuð misjafn eftir íþróttagreinum. Flestir styrkir bjóðast gjarnan í íþróttum á borð við ruðning, körfubolta, hafnabolta, frjálsar íþróttir, knattspyrnu, sund, glímu og róður.

Skólar sem veita íþróttastyrki eru yfirleitt bundnir af bandrísku jafnréttislöggjöfinni, sem kveður m.a. á um jafnan rétt kvenna og karla til aðgengis að íþróttastyrkjum. Þar sem stærsta íþróttin í bandarísku háskóladeildunum, ruðningur, er eingöngu karlaíþrótt, þýðir það að ýmsar aðrar íþróttir bjóða eingöngu eða mestmegnis upp á styrki fyrir konur. Dæmi um þetta eru keila, blak og róður.

Mörg íslensk ungmenni hafa komist á fótboltastyrk til Bandaríkjanna og má nefna sérstaklega árangur kvenna í því sambandi.

Kröfurnar eru ólíkar eftir íþróttagreinum og jafnframt möguleikar útlendinga til að komast á íþróttastyrk. Það verður einfaldlega að kynna sér stöðuna í einstökum íþróttagreinum.

Hvernig er sótt um íþróttastyrk?

Nemendur þurfa að koma sér í samband við þjálfara úti í Bandaríkjunum. Mikilvægt er að kynna sér reglur varðandi samskipti þjálfara og íþróttamanns því það er ekki sjálfgefið hvernig þau mega fara fram. Strangar reglur gilda um þessi samskipti og brot á þeim getur varðað sviptingu styrks.

Mikilvægast fyrir nemendurna er að þeir verði sérfræðingar í sínum eigin málum og treysti ekki á þjálfara eða „agent“ í þeim efnum. Efnilegir nemendur sem vel gætu átt möguleika á styrkjum geta misst af frábærum tækifærum ef þeim er ekki sinnt sem skyldi. Sérhæfðar leitarvélar eru aðgengilegar til að finna skóla eftir greinum, íþróttum, deildum eða hverju sem hentar. Skoða má kaflann um leitarvélar hér á síðunni til að finna nokkrar slíkar.

Markmiðið er alltaf að sameina nám og ástundun íþróttar með því að fá styrk fyrir hið síðarnefnda til að greiða niður hið fyrrnefnda. Þannig komast margir í grunnháskólanám til Bandaríkjanna sem ella væri torsótt sökum kostnaðar. Öruggasta leiðin er að reyna að fá mörg tilboð um styrki og skólavist og geta þannig valið úr mörgum tilboðum.

Það getur verið snúið fyrir íþróttafólk að ákvarða sjálft hvar það stendur í íþrótt sinni meðal jafningja, ekki síst í hópíþróttum. Ráðlegt er að leita sér að liði þar sem maður getur lagt mikið af mörkum og liðsfélagarnir eru á svipuðu getustigi og maður sjálfur.

Á vefsíðum eins og berecruited.com er hægt að skoða ferilskrár íþróttafólks og bera þær saman við sína eigin. Gott er að fá ráð og leiðbeiningar hjá íslenskum þjálfurum, sérstaklega þeim sem hafa áður sent keppendur sína til Bandaríkjanna. Mikilvægt er að vera heiðarlegur og reyna að meta sjálfan sig á hlutlausan hátt. Auðvitað skiptir líka máli hvers konar leikmanni bandarískir þjálfarar eru að leita að.

Lykilatriði við að koma sér á framfæri er að senda myndbandsupptöku til þjálfara. Bandarískir þjálfarar líta oft ekki á umsóknir frá íþróttamönnum ef þeir geta ekki séð myndband af viðkomandi. Kynningarmyndbönd þurfa að vera stutt og hnitmiðuð en jafnframt er gott að eiga myndband af heilum leik líka ef ske kynni að þjálfari bæði um það. Einfaldast er að setja myndband eða myndbönd á sína eigin Youtube-rás og senda svo þjálfaranum tengil á myndbandið með tölvupósti. Ekki er ráðlegt að senda myndbönd sem viðhengi með tölvupósti; þau enda iðulega í ruslpósti. Talið er að um 20% myndbanda komist aldrei í hendur þjálfara og þar með missa nemendur af gullnu tækifæri sem mögulegir styrkþegar.

Vægi mismunandi þátta þegar kemur að styrkveitingum

  • Hæfileiki í íþrótt vegur u.þ.b. 50%, þar á meðal styrkur, hraði, tækni.
  • Einkunnir, meðaleinkunnir í kjarnagreinum þ.e. hvernig nemandi stendur sig hlutfallslega í sínum bekk, ACT/SAT, TOEFL stig vega um fjórðung.
  • Eðli málsins samkvæmt vega þættir eins og persónuleiki, leiðtogahæfileikar, vinnulag og hæfileiki til að koma sér á framfæri og fylgja málum sínum eftir líka þungt.

Mikilvæg atriði varðandi „kynningarpakka“ nemandans/íþróttamanns til þjálfara

  • Vandaður tölvupóstur til þjálfara þar sem fylgt er kurteisisvenjum Bandaríkjamanna. Ávarpið þjálfarann með eftirnafni, „Dear Coach LastName“.
  • Íþróttaferilskrá
  • Myndbandsupptaka
  • Meðmæli frá fyrrverandi/núverandi þjálfara
  • Keppni framundan
  • Tölvupóstfang og hvernig þjálfari getur verið í sambandi þarf að vera skýrt í öllum samskiptum.
  • Notið alvarlegt netfang en ekki eitthvað í stíl við: [email protected]
  • Kynna sér vel þjálfarann og liðið áður en haft er samband.
  • Stutt frásögn um sigra, afrek og fjölmiðlaumfjöllun. Blaðaumfjöllun lítur vel út þótt á erlendu tungumáli sé.
  • Stuttorð og hnitmiðuð kynning um sjálfan þig. Mikilvægt er að nefna af hverju þú gætir skipt liðið máli og hvað þú hefur fram að færa.
  • Gott að kynna sér efni annarra íþróttamanna á vefsíðunni berecruited.com, sjá hvernig þeir kynna sig og hvernig það gekk.

Frekari upplýsingar um íþróttasamtök

NCAA Division I:

Yfirleitt mjög stórir háskólar og með öfluga íþróttastarfsemi. Þeir leita gjarnan sjálfir að hæfu íþróttafólki. Styrkir eru oft mjög veglegir en fjöldi þeirra er takmarkaður af NCAA-samtökunum.

NCAA Division II:

Yfirleitt minni háskólar upp í meðalstóra. Flestir bjóða upp á nokkra styrki, ekki eins háa og í fyrstu deild. Mjög algengt að þeir leiti sjálfir að íþróttafólki.

NCAA Division III:

Minnstu háskólarnir en stærsta deildin. Engir íþróttastyrkir eru leyfðir í þessari deild. Eingöngu er boðið upp á fjárhagsaðstoð sem miðast við fjárþörf og er sú aðstoð frekar takmörkuð.

Kostir NCAA-skóla:

  • Mesta samkeppnin er í fyrstu deildinni D-I NCAA og eftir því erfiðast að komast inn í hana.
  • Flestir styrkir eru veittir í fyrstu og annari deild, D-I og D-II.
  • Margir atvinnumenn hefja feril sinn hjá þriðju deild, en sú deild NCAA er með hvað sveigjanlegastar reglur varðandi þátttöku.

Kostir NAIA-skóla:

  • Samtök margra minni hefðbundinna fjögurra ára háskóla.
  • Um 350 háskólar eru innan þessara samtaka.
  • Margir þessara skóla eru með mjög góðar íþróttadeildir og flestir bjóða upp á einhverja íþróttastyrki.
  • Þar er einnig leikið í fyrstu og annarri deild og mikið af styrkjum í boði við minni háskólana.
  • Inntökuskilyrði eru ekki eins ströng og hjá NCAA og því auðveldara fyrir nemendur að komast í samband við þjálfara þessara skóla.
  • Miklar líkur eru á að fá að keppa á stórmótum fyrir hönd skóla í þessum samtökum.
  • Samtökin bjóða upp á sveigjanleika á að færa sig yfir í aðra skóla án þess að missa styrkinn.

Kostir NJCAA-skóla:

  • NJCAA eru íþróttasamtök tveggja ára háskóla, Community College.
  • Fjölbreyttur hópur náms- og íþróttamanna sækir þessa skóla og er sveigjanleiki töluverður.
  • Þar er leikið í þriðju deild, D-III.
  • Skólagjöld eru afar lág og mjög góð tækifæri eru til staðar á að færa sig yfir í fjögurra ára háskóla.