Sigríður Kristjánsdóttir, deildarforseti Skipulags-og hönnunardeildar við Landbúnaðarháskóla Íslands, og Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, hafa verið valdar til þátttöku í Fulbright Arctic Initiative III (FAI). Þær voru valdar sameiginlega af stjórn Fulbright-stofnunarinnar á Íslandi og stjórn Fulbright í Bandaríkjunum, en FAI er flaggskip Fulbright á sviði Norðurskautsrannsókna.
Þetta er þriðja lota FAI, en markmið áætlunarinnar er að styrkja alþjóðlegt vísindasamstarf á sviði Norðurskautsfræða. FAI stuðlar að þverfaglegu samstarfi þar sem mál tengd Norðurskautssvæðinu eru skoðuð með heildstæðum hætti. Áhersla er lögð á hagnýtar rannsóknir sem nýtast við að leysa sameiginlegar áskoranir. Um er að ræða 18 mánaða verkefni sem hefst vorið 2021 með þátttöku 18 fræði- og vísindamanna frá ríkjum Norðurskautsráðsins. FAI er einstakt tækifæri til alþjóðlegs samstarfs í Norðurskautsrannsóknum, þar sem þátttakendur efla tengslanetið, heimsækja valin Norðurskautssvæði og vinna bæði að einstaklingsrannsóknum og sameiginlegum verkefnum. Í fyrri lotum FAI tilnefndi Ísland einn styrkþega, en vegna fjárframlags frá mennta- og menningar-, umhverfis- og auðlinda-, og utanríkisráðuneytunum, fékk Ísland úthlutað tveimur sætum í þriðju lotunni.
Unnið verður í þremur vinnuhópum sem hafa hver sitt áherslusvið: öryggismál og samstarf (Arctic Security and Cooperation), innviðir á breytingartímum (Arctic Infrastructure in a Changing Environment) og heilbrigðismál (Community Dimensions of Health). Silja Bára tekur þátt í hópi eitt og Sigríður í hópi tvö.
Báðir fræðimennirnir hafa lagt mikið af mörkum til háskólasamfélagsins á síðustu árum. Þær hafa víðtæka reynslu af alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi, hafa setið í fjölmörgum nefndum og eftir þær liggja mörg ritverk á fagsviðum þeirra. Sigríður lauk doktorsnámi 2007 í umhverfisfræðum frá University of Birmingham. Hún hóf störf við LBHÍ árið 2004, en tók við stöðu deildarforseta árið 2020. Rannsóknarverkefni Sigríðar snýr að sjálfbærri þróun á Norðurskautinu, með áherslu á skipulagsmál og landnýtingu. Silja Bára lauk doktorsnámi í stjórnmálafræði frá University College Cork árið 2018 og hlaut prófessorsstöðu í alþjóðasamskiptum við HÍ árið 2020. Hún er jafnframt rannsóknarstjóri Höfða friðarseturs. Rannsókn Silju Báru fjallar um öryggismál í víðu samhengi og frá sjónarhorni íbúa Norðurskautssvæða.