News

Aukin þátttaka Íslands í Fulbright Arctic Initiative III

Fulbright Iceland Valsson

Fulbright Iceland Valsson

Fulbright Arctic Initiative (FAI) er þverfaglegt 18 mánaða rannsóknarverkefni með þátttöku allra ríkja Norðurskautsráðsins og hefur Fulbright stofnunin umsjón með verkefninu fyrir Íslands hönd. Markmið FAI er að efla rannsóknarsamstarf á Norðurskautinu og auka þekkingu á víðum grunni. Tveir íslenskir fræðimenn hafa tekið þátt í fyrri lotum FAI, Dr. Bjarni Már Magnússon frá HR í fyrstu lotunni og Dr. Lára Jóhannsdóttir frá HÍ í annarri lotu. FAI er einstakt tækifæri fyrir öfluga fræðimenn til að styrkja tengslanetið, taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og auka gagnkvæman skilning á milli Norðurskautsþjóða.

Þriðja lota FAI hefst á næsta ári. Í ljósi jákvæðrar reynslu af þátttöku í fyrri verkefnalotum hefur Fulbright stofnunin, í samráði við mennta- og menningarmála-, utanríkis- og umhverfisráðuneytið, ákveðið að efla þátttöku Íslands í þriðju lotunni.

Ráðuneytin þrjú hafa í sameiningu lagt til fjármagn sem gerir stofnuninni kleift að styrkja tvo íslenska fræðimenn til þátttöku í FAI III í stað eins.  Belinda Theriault, framkvæmdastjóri Fulbright stofnunarinnar, sagði við þetta tækfæri að framlag og árangur fyrri þátttakenda hefði lagt grunninn að frekari og viðameiri þátttöku Íslands í FAI III. Um leið og hún þakkaði ráðuneytunum þremur fyrir þeirra framlag benti hún á að mikil viðurkenning væri fólgin í því að ríkisstjórnin vilji efla þátttöku Íslands í Fulbright samstarfi sem styrkir alþjóðlegt og þverfaglegt vísindasamstarf á norðurslóðum.