Leiðbeiningar og eyðublöð

Hér eru einfaldar leiðbeiningar. Ítarlegar leiðbeiningar og eyðublöð má finna hér. Mikilvægt er að umsækjendur lesi þessar upplýsingar mjög vandlega og styðjist við þær við gerð umsóknar.

Til að sækja um þennan styrk þarf að fara í flipann „Country Information“ og undir „Award Information“ velja „Visiting Student Researcher“. Fylla skal út umsóknina eftir sömu leiðbeiningum og fyrir almenna Fulbright-umsókn fyrir námsmenn. Ef spurningar vakna má hafa samband við ráðgjafa Fulbright-stofnunarinnar.

Nauðsynlegt er að umsókn sé unnin og henni skilað í rafræna kerfinu (Slate official online application for Fulbright Foreign Student Program). Þegar notandi skráir sig í fyrsta sinn þarf að gefa upp netfang, sem kerfið notar til að senda nauðsynlegar upplýsingar til umsækjanda. Mikilvægt er að lesa vel leiðbeiningar um það hvernig fylla á út umsóknina og hvernig á að senda meðmælendum tengla svo þeir geti skilað meðmælum á viðeigandi hátt.

Aðeins þeir sem hljóta styrk þurfa að skila læknaskýrslu, „Medical History and Examination Form“. Vinsamlegast skilið henni ekki með umsókninni.

Ábyrgð umsækjanda

Umsækjandi ber ábyrgð á að öll gögn berist Fulbright-stofnuninni á réttum tíma. Einungis þær umsóknir sem berast með öllum fylgigögnum áður en umsóknarfrestur rennur út verða teknar til greina.

Til viðbótar við rafræna umsókn skal skila til Fulbright-stofnunarinnar einu útprentuðu eintaki af umsókn og öllum fylgigögnum.

Almenn skilyrði sem umsækjendur verða að uppfylla

  • Umsækjandi verður að vera íslenskur ríkisborgari.
  • Umsækjandi má ekki vera handhafi græna kortsins eða með bandarískt ríkisfang.
  • Umsækjandi skal vera í doktorsnámi við íslenskan háskóla. Skólavist þarf ekki að liggja fyrir.
  • Allar námsgreinar eru styrkhæfar nema læknisfræði og annað nám sem felur í sér eftirlitslaus samskipti við sjúklinga.

Um val á styrkþegum og meðhöndlun umsókna gildir það sama og um almennar Fulbright-umsóknir.

Tveggja ára reglan

Íslenskir námsmenn sem þiggja Fulbright-styrk fara til Bandaríkjanna með J-1 vegabréfsáritun og eru bundnir af svokallaðri „tveggja ára reglu“. Hún kveður á um að viðkomandi snúi aftur heim að námi loknu og geti hvorki sótt um dvalar- né atvinnuleyfi í Bandaríkjunum í a.m.k. tvö ár að loknu námi.
Hægt er að sækja um undanþágu frá þessari reglu. Það er tímafrekt ferli og ólíklegt að undanþágan verði veitt. Allar nánari upplýsingar um það umsóknarferli er að finna á heimasíðu bandaríska utanríkisráðuneytisins.