Fulbright Commission Iceland Health Exchange

Fulbright stofnunin á Íslandi auglýsir styrk til styttri sérfræðingsskipta, en verkefnið á að snúa sérstaklega að baráttunni við COVID-19 og annarra slíkra faraldra í framtíðinni. Miðað er við að ferðir fræðimannanna eigi sér stað fyrir lok árs 2023.

Markmið styrksins er að efla vísindasamstarf og miðlun þekkingar á sviði baráttunnar við COVID-19 á milli íslenskra og bandarískra vísindamanna og stofnanna.

Framlengdur umsóknarfrestur er til 20. nóvember 2022.

Nánari upplýsingar um umsókn er að finna neðar á síðunni.

Um er að ræða styrk fyrir íslenskan fræðimann til að heimsækja Bandaríkin í tvær vikur. Jafnframt er veittur styrkur til að fá Bandarískan fræðimann til Íslands í 2-3 vikur.

Styrkurinn er ekki bundinn ákveðnu fræðasviði en verkefnið á að snúa sérstaklega að baráttunni við COVID-19, áhrif faraldsins á samfélagið og hvað læra megi af reynslu undanfarinna ára til að takast á við slíka faraldra í framtíðinni.

Styrkurinn gæti t.d. nýst á sviði faraldsfræða eða annarra læknavísinda, sálfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði, hagfræði, menntavísinda og umhverfisfræði. Hugsanleg viðfangsefni eru t.d. innlegg í faraldsfræðilegar rannsóknir, langtímaáhrif veirunnar á smitaða, áhrif einangrunar á aldraða, langtímaáhrif á ferðalög og ferðaþjónustu, upplýsingaþjónusta til ungs fólks, smitrakning og samanburðarrannsóknir á útbreiðslu og viðbrögðum við COVID-19. Þetta er ekki tæmandi listi, en verkefnið þarf að einhverju leyti að fjalla um áhrif, viðbrögð eða reynslu af COVID-19.

Styrkinn má nýta til kennslu, þróunarstarfa, eflingar samstarfs, námskeiðahalds, fyrirlestraraðar, undirbúnings rannsóknarvinnu og fleira.

Einstaklingur sækir um styrkinn til Bandaríkjanna á umsóknareyðublaði sem finna má hér. Þegar styrkþegi hefur verið valinn, mun viðkomandi fylla út Fulbright Specialist umsókn til að fá bandarískan samstarfsmann til Íslands.

Styrkur til Bandaríkjanna

Veittur er styrkur til íslensks fræðimanns/sérfræðings til tveggja vikna dvalar í Bandaríkjunum. Styrkþegi fær greiddar ferðir til og frá Bandaríkjunum og dagpeninga til að greiða gistingu og uppihald á styrktímabilinu.

Ferilskrá skal fylgja umsóknareyðublaði. Umsækjandi skal fá tvo meðmælendur til að skrifa meðmælabréf. Meðmælendur skulu senda meðmælabréf beint á [email protected] (ekki með milligöngu umsækjanda).

Umsóknarfrestur er til 20. nóvember 2022.

Umsóknareyðublað

Sérfræðingur til Íslands

Veittur er styrkur til að taka á móti bandarískum fræðimanni/sérfræðingi í 2-3 vikur. Allur kostnaður við komu styrkþegans er greiddur af Fulbright.

Sótt er um í gegnum Fulbright Specialist Program umsóknarkerfið. Sjá nánari upplýsingar um hvernig sótt er um hér: https://fulbright.is/receive-a-us-scholar/specialist-program/.

Setjið sem Project Title: Fulbright Iceland Health Exchange. Athugið að ekki þarf að fylla út reitina um „cost share“ þar sem Fulbright stofnunin greiðir þann kostnað.