Um er að ræða styrk fyrir íslenskan fræðimann til að heimsækja Bandaríkin í tvær vikur. Jafnframt er veittur styrkur til að fá Bandarískan fræðimann til Íslands í 2-3 vikur.
Styrkurinn er ekki bundinn ákveðnu fræðasviði en verkefnið á að snúa sérstaklega að baráttunni við COVID-19, áhrif faraldsins á samfélagið og hvað læra megi af reynslu undanfarinna ára til að takast á við slíka faraldra í framtíðinni.
Styrkurinn gæti t.d. nýst á sviði faraldsfræða eða annarra læknavísinda, sálfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði, hagfræði, menntavísinda og umhverfisfræði. Hugsanleg viðfangsefni eru t.d. innlegg í faraldsfræðilegar rannsóknir, langtímaáhrif veirunnar á smitaða, áhrif einangrunar á aldraða, langtímaáhrif á ferðalög og ferðaþjónustu, upplýsingaþjónusta til ungs fólks, smitrakning og samanburðarrannsóknir á útbreiðslu og viðbrögðum við COVID-19. Þetta er ekki tæmandi listi, en verkefnið þarf að einhverju leyti að fjalla um áhrif, viðbrögð eða reynslu af COVID-19.
Styrkinn má nýta til kennslu, þróunarstarfa, eflingar samstarfs, námskeiðahalds, fyrirlestraraðar, undirbúnings rannsóknarvinnu og fleira.
Einstaklingur sækir um styrkinn til Bandaríkjanna á umsóknareyðublaði sem finna má hér. Þegar styrkþegi hefur verið valinn, mun viðkomandi fylla út Fulbright Specialist umsókn til að fá bandarískan samstarfsmann til Íslands.